Vísur

Stundum kemur andinn yfir mig og ef ég er með penna, þá festi ég það á blað, nú eða        I-padinn.

Ég hef gert nokkra jólatexta og lög við þá og bæti hér einum í safnið og ef það gleður einhvern, þá gleður það mig.
Gleðilega hátíð vinir, samferðafólk og landsmenn allir.

Frumflutt ( lesið) í kaffi Eldri bræðra 2017.

Með þessu ” Aðventu-ljóði” sem ég gerði. 2017. vil ég senda ykkur FB-vinum bestu óskir
um, Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Jólaljósin

Þegar jóla-ljósin loga,
læðist brosið út á kinn.
Væntingarnar tár fram toga
og trítla niður vanga minn.

Táp og fjör sem tengt er gleði,
töfra saman hug og ást.
Leggjum okkar líf að veði,
læknum alla sem nú þjást.

Tréð er skreytt og ljósin lýsa,
lífga upp á frosinn snjó.
Inni kveðin ástsæl vísa,
enginn fær hér af þeim nóg.

Jólaljósin jafnan veita,
jafnvægi og sálarró.
Gott er á sinn guð að heita
og gefa börnum holt í skó

Aðventu-ljósin.
Ljóð og lag: HR

Ljósið það gefur oss lífið og trú
og lýsir mér í gegnum árin.
Gætir mín jafnan og gefur mér nú,
gleði sem læknar mörg sárin.

Á Aðventu kransinum kveiki fyrst á,
kerti með austræna speki.
Langar að gefa því lífið og sjá,
loga þess ná fullu þreki.

Betlehems kertið það bætist næst við,
svo bjartasta von allra hirða.
:l Englanna kerti er síðast á svið,
að sjálfsögðu allir það virða :l

Í stofunni horfi ég hugfanginn á,
hamingju-loganna geisla,
færa mér gleði og friðsæld og þrá,
í frelsi sem aldrei má beisla.

Já, já, jólin koma.

Ljóð og lag eftir mig sungið af Svanhildi Jakobs , lenti í 3ja sæti í jólalagasamkeppni hjá RUV fyrir nokkrum árum.
Útsett og spilað á 10 hljóðfæri af Vilhjálmi Guðjóns.

Desember er dásamlegur tími,
dagsins birta þá er ekki löng.
Ljósin björtu lýsa niðdimm rými,
litlum krökkum finnst oft, biðin ströng.
Jólaljós og jólasöngvar,
jafnan boða hátíð í bæ.
Jólin koma, já, já, jólin koma,
jólin koma yfir land og sæ.

Jólin sífellt boðskap til oss bera,
barn í jötu fætt af hreinni mey.
Jólasöngvar hátíð helga gera,
hljómar fagrir óma, gleym mér ei.
Jólaljós og jólasöngvar,
jafnan boða hátíð í bæ.
Jólin koma, já, já, jólin koma,
jólin koma yfir land og sæ.

Jólagleði
Höf. Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson 10.12.’18
Við lagið: Bráðum koma blessuð jólin.

Jólin nálæg virðast vera,
víða ljósadýrð má sjá.
Utanhúss sem innan gera
allir hreint og brosa þá.

Jafnan setja börn upp brosið,
bjartsýn hugsa jóla til.
Ekki samt er á allt kosið,
enginn fær nú kerti’ og spil.

Flest nú tölvu-tæki vilja,
takkaborð og risaskjá.
Aldnir lítið í því skilja,
oftast hljóðir ganga frá.

Það má hafa glens og gaman,
ganga kringum jólatré.
Alltaf gott að gleðjast saman,
gjafir láta svo í té.

Hríðarkorn á himni voma,
hvít jól geta orðið trist.
Þegar snjókorn snæhvít koma,
snýst hér flest um útivist.

Jólafriður
Texti: Hafsteinn Reykjalín
Við lagið: Aðfangadagskvöld.
( Nú er Gunna á nýju skónum )

Mæður sælar mega vera,
margt þó pirri smá.
l:: Skrautleg ljósin skugga gera,
:l: skaðlausa þeim hjá :l:

Jólum getum jafnan þakkað,
jákvætt viðhorf þitt.
:l: Gjarnan er þá gjöfum pakkað,
:l: gef þér hjartað mitt :l:

Krakkar eftir bögglum bíða,
bænir lesa’í ró.
:l:Tíminn er svo lengi að líða,
:l: loks kom gjöf í skó :l:

Nóttin geymir næturhúmið,
nálgast sturtubað.
:l: Fegin móðir fer í rúmið,
:l: fátt er betra’en það :l:

Upp að morgni aftur vakna,
endurnærð og hress.
:l: Allir jólasveina sakna,
:l: segja: Vertu bless :l:

Sígur að hausti.
Nú sígur að hausti, sem heltekur lauf,
sem hníga af greinum, litrík en dauf
og býða þar vetrarins kalda.

Sem næring að vori, þau vakna sem mold
og vefjast um rætur, er rísa úr fold
og viðhalda blómskrúði alda.

Lífsgleði njóttu.

Mitt yndi er að fíla og finna,
fjör í æðum vina minna.
Lifa og vera frjáls í fasi,
forðast allt sem veldur þrasi.

Njóta lífsins,elska og unna,
unaði fylla soltna munna.
Geisla frá sér yndi og yl,
ylja þeim sem finna til.

Í dómum öllum vera vægur,
vingast meðan tími er nægur.
Dagþéttri veröld við lifum í,
varast skulum að gleyma því.

————————

Fuglinn við Kópavoginn.

Kópavogur svo kær oss er.
Komum ætíð öll í röð.
Er vorið kemur, – vetur fer,
við fljúgum um lönd og löð.

Það er bjart og besti dagur,
ég brosi og sólin skín.
Vogurinn friðsæll og fagur
og fuglar með börnin sín.

Hér læra þann leik að synda,
og leikandi kafa létt.
Skrifa í Voginn mál mynda,
mér skilaboð senda þétt.

Það er bjart og besti dagur,
ég brosi og sólin skín.
Vogurinn friðsæll og fagur
og fuglar með börnin sín :

Tilefni 85 ára afmælis mömmu 16.ágúst 1999
Hulda Vigfúsdóttir

Áfram sífellt tíminn tifar,
tafir engar líður hann.
Eitt af því sem enginn bifar,
alltaf vinnur hann með sann.

Líf frá börnum upp í aldna,
ávalt tíminn markar spor.
Alla gerir illa haldna,
ekkert stöðvar faðir vor.

Til bekkjarbræðra 10.09.2005 er við komum saman á Salt veitingastaðnum
og endaði á ákvarðanatöku um ferð til Kína 2006.

Borðum og skálum hér saman,
spjöllum og höfum gaman.
Skál,-fyrir þér og þinni.
Skál, -fyrir mér og minni.
Stund þessa látum svo líða,
ljúft,- eins og hljóma þýða.
Leggjum á ráðin sem lengst út í geim,
svo langt,-að við rötum vart heim.

—————————

Dropinn, skemmtisjóður tæknideildar Kópavogs.

Dropinn alltaf drjúgur er
Dropinn holar steininn
Dropinn seigur sýnist mér
Dropinn slær á meinin.

Dropinn vætir vanga minn
Dropinn veltir þrautum
Dropinn gleður gæskan mín
Dropinn gleðst í lautum.

Dropinn gleður góða menn
Dropinn gleður konur
Dropinn frjóvgar flesta enn
Dropinn flengir sonur.

Á ferð um Búdapest 2003

Búdapest er yndisleg,
öll í endurbótum.
Dónár sigling dásamleg,
djásnum hennar njótum.

Þetta er ljúfasta lagið… ( einnig gerði ég lag við þetta)

Hvað finnst þér dásamlegra en dansa og njóta ?
Dásemdra allra sem lífið á.
Hvað finnst þér yndislegra en elska og brjóta,
á bak aftur fjötra og dulda þrá.
;Já, dansa og dansa,
uns dagur nýr rís.
Að dansa við þig eina,
þig eina ég kýs ;
Þetta er ljúfasta lagið mitt nýja,
lausa frá jörðu ég hef þig til skýja.

Gefðu mér mynd.

Lag og texti H.R. gert fyrir Hljómsv. Ingimars Eydals í Sjallanum.

Gefðu mér mynd, svo ég þér ei gleymi,
get’i á þig horft, svo ég um þig dreymi.

Þú varst mér allt, sem góður vinur getur,
þú gafst mér allt, þú gatst ekki betur.
Minningin um þig mun ei gleymast mér
ef myndina sendirðu fljótleg’a af þér.

Við eigum margs að minnast,
munum við aftur finnast,
kannski þá líka aftur þar,
þar sem ást okkar tendruð var.

Enn við vorum svo ógnar ólík,
ég var snauður en þú varst rík.

Ég man þitt bros sem heillað hefur alla
ég heyrði hjartað hrópa á þig og kalla.

Get þér ei gleymt né okkar góðu stundum,
glaður mun eiga von á endur fundum.

Minningin um þig mun ei gleymast mér,
ef myndina sendirðu fljótleg’a af þér.